Þorgeir Magnússon (Uppsölum)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Þorgeir Magnússon bóndi fæddist 3. október 1852 á Syðsta-Hvoli í Mýrdal og lést 28. ágúst 1914 í Uppsölum í Eyjum.
Faðir hans var Magnús vinnumaður, f. 1827 í Pétursey, Einarsson (líka nefndur Margrétarson og Ólafsson).
Móðir Magnúsar var Margrét vinnukona, f. 1798, d. 3. september 1836, Ólafsdóttir bónda víða, en síðast á Dyrhólum í Mýrdal, f. 1764, d. 5. desember 1839 í Nýjabæ u. Eyjafjöllum, Skúlasonar, og konu Skúla, Katrínar, f. 1752, Hafliðadóttur.
Móðir Þorgeirs og barnsmóðir Magnúsar vinnumanns var Björg vinnukona, f. 28. ágúst 1816 á Undirhrauni í Meðallandi, d. 1. apríl 1881 á Reyni í Mýrdal, Þorgeirsdóttir bónda, síðast í Eystri-Dalbæ í Landbroti, f. 1772 í Hvammi í Skaftártungu, d. 24. júlí 1850 í Eystri-Dalbæ, Árnasonar bónda í Hvammi 1772 og 1773, Sigurðssonar (kona ókunn).
Móðir Bjargar og kona Þorgeirs bónda var Þorgerður húsfreyja, f. 1782, d. 5. október 1857, Jónsdóttir bónda á Efri-Steinsmýri, f. 1729, d. 1785, Sveinssonar, og konu Jóns, Auðbjargar húsfreyju, f. 1743, d. 26. júní 1829, Eyjólfsdóttur.

Þorgeir var með móður sinni á ýmsum bæjum í Mýrdal fyrstu 8 ár ævinnar. Þá var hann fósturbarn og síðan vinnumaður til ársins 1781, er hann varð bóndi í Kárhólmum þar 1781-1783, þá á Reyni þar 1883-1885, síðan vinnumaður og lausamaður, en frá árinu 1900-1905 var hann bóndi á Kvíabóli þar.
Þorgeir og Málfríður Loftsdóttir fluttust til Lofts sonar síns og Sigríðar konu hans að Uppsölum 1905.

Kona Þorgeirs í Uppsölum, (1881), var Málfríður Loftsdóttir húsfreyja, f. 21. júní 1840, d. 1. september 1914.

Börn Þorgeirs og Málfríðar voru:
1. Loftur Þorgeirsson í Uppsölum, f. 18. október 1878, d. 23. desember 1964.
2. Ingibergur Þorgeirsson, f. 4. janúar 1881, d. 15. mars sama ár.
3. Þorsteinn Þorgeirsson, f. 6. apríl 1883.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.