Úr fórum Árna Árnasonar. Ókunnir höfundar/Ýmsar vísur og kvæði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Vísa eftir Jón í Hlíð
Tilefni: Gíslína Gísladóttir
var að keyra fiski á handvagni af bryggjunni.
Vagninn bilaði og fiskurinn fór í drulluna.
Sagði þá Gíslína, sem er orðhákur mesti:
„Djöfull og helvíti, allt í drulluna.“
Ég rakst á það rétt fyrir stuttu,
raun er að tala um það:
Djöfull og helvíti duttu
í drulluna á sama stað.


Vestmannaeyjar
Eflist hér byggð og bú,
blessun og velgengni dafni.
Verndi þig Vísir á hæð,
vinhlýja sægirta Ey.
Með blómum í laufgrænni laut
og ljómandi söngfugla kliðinn,
árshringinn árla og síð
Eybúum skemmtun, sem ljær.
Þú ert svo fögur og fríð
með fjöllin og hnjúkana græna,
að allir, sem augum þig sjá,
óska, að þú dafnir sem best.
Vér horfum á hátíðarstund
á hátignarkórónu þína,
og óskum, að gefi þér guð
gengi um eilífa tíð.
Það skal vort einkunnarorð
á meðan Eyjarnar standa,
umgirtar ólgandi sæ,
og ómar þeim brimið við strönd.
(Höf. ókunnur).


Heimhugur
Hnígur sunna, særinn dynur
svalan óð við fjörustein.
Næðir bitur norðan vindur,
nakin stynur skógargrein.
Einn ég sit við sævarströndu
sviftur blöðum undir lund.
Þrái ég ættjörð, stúrinn, stúrinn
og stari fram á Eyrarsund.


Heyrðu, bára — ljúf er laugar
lítinn stein — að fótum mér,
hvaðan komstu langar leiðir?
Langar til að deyja hér.
Ertu fædd við foldu ísa
Fróni móður dýru hjá?
Berðu máske mjúka kveðju
mínum kæru heiman frá?


Sé ég brosa bláu fjöllin
beint á móti Eyja-grund.
Þau eru há og hrein og fögur
og horfa tigin fram á sund.
Þó er eitthvað, eitthvað vantar,
augu mín því fella tár,
það er ekki Dalfjall bláa
og ekki Heimaklettur hár.


Nú er heima haust og kuldi,
heiðló flúin burtu er,
en þó finnst mér Ísland aldrei
eiga haust í brjósti mér,
þar sem bjó minn besti faðir,
bræður góðir og vina fjöld,
og þar hvílir milda móðir,
þögul stirð og köld.


Sunna er hnigin, særinn þagnar,
sefur hún við unnarstein.
Vindur blundar báru að faðmi,
blaðlaus hnípir skógargrein.
Einn ég sit við sævarströndu
sviptur blöðum undir lund.
Þrái ég Ættjörð — stúrinn, stúrinn
og stari fram á Eyrarsund.
(Ókunnur höfundur)
Ef símafólk brestur dug og dáð
og djörfung til þess, það áformar.
Þá býður því enginn betri ráð
og blessunarríkari´en Þormar.
Eyjasímans fólk er fátt
finnst þó víða betra
það hefir töfl við tímann átt
og teflt í marga vetra.
Ljúfar dísir lífs og friðar
leiði þig um gæfuveg
sól er aldrei sest til viðar
sinni blíðu vefji þig.


Æviþættir
Unaðsóma
angan blóma
æska og vor í skauti ber.
Vonir rætast,
varir mætast
vina, er ástin flug sitt ljær.


Glóa skálar,
gleðin bálar,
glymur dans og hornaspil.
Þá er kæti
lífkvik læti
ljúf þeim anda, er finnur til.


Árin líða
ævitíða
út í tímans reginhyl.
Sorgir mæða,
sárin blæða,
sést ei tíðum handaskil.


Fyrr en varir
flökta á skari
fjarra daga skærust ljós.
Straumar brotna
stansa, þrotna
stilltan loks við feigðarós.
Hvað segir þú um þennan bragarhátt?
Finnst þér hann ekki láta vel í eyrum?
(Höf. ókunnur).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit