Árni Elfar (viðtal)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Stökkva á: flakk, leita

Hér birtum við viðtal sem Skapti Örn Ólafsson átti við Árna fyrir nokkrum árum og birtist í blaðinu Fylki. Í viðtalinu segir Árni frá árunum í Eyjum og viðkynnum sínum af frægum Eyjamönnum eins og Ása í Bæ, Oddgeir Kristjánssyni og Jóhanni Friðfinnssyni - Jóa á Hólnum.


Heimilið ómaði af tónlist

Til að opna viðtalið formlega spyr blaðamaður hver þessi Árni Elfar sé í raun og veru. „Það er nú það. Ég hef oft spurt sjálfan mig að þessu og ekki ennþá fundið gott svar við því. Það tekur alla ævi að kynnast sjálfum sér og maður spyr sig oft og iðulega hvaðan kem ég og hvert fer ég. En að öllu gamni slepptu þá er ég fæddur á Akureyri 1928 og foreldrar mínir voru Elísabet Þórunn Kristjánsdóttir og Benidikt Elfar,“ sagði Árni sem er giftur Kristjönu Magnúsdóttur og eiga þau 4 börn saman og 2 í sitt hvoru lagi. „Ég kynntist Kristjönu í kringum 1960 þegar hún var ungfrú Reykjavík og ég heillaðist svona rosalega af henni,“ útskýrði Árni.

Foreldrar Árna voru bæði tónlistarfólk þannig að hann fékk tónlistina og menninguna beint í æð sem ungur drengur. „Tónlist var á heimilinu frá því að maður fæddist og maður fór fljótlega að skynja þetta en því miður varð ekkert úr tónlistarnámi hjá manni þó svo að foreldrarnir hafi báðir verið miklir músíkantar, móðirin stórpíanist og faðirinn söngvari. Þannig að það má segja að maður sé sjálfmenntaður í faginu en áhuginn hefur verið ódrepandi síðan. Það sama má segja um myndlistina sem ég fékk strax áhuga á sem ungur drengur og hef ég ekki skilið við mig blýantinn eða pensilinn allt fram á þennan dag, eða frá því maður var fimm eða sex ára gamall,“ sagði Árni.

Faðir Árna var mikill ævintýramaður, ekki ólíkt Árna sjálfum, og fór á vit ævintýranna til Berlínar til að læra söng. Síðar átti Árni eftir að fara suður til Vestmannaeyja til að spila tónlist. „Faðir minn var prestlærður en tók aldrei próf. Síðan fékk hann einhverja köllun og ákvað að fara á vit ævintýranna suður til Berlínar um 1920. Þar ætlaði hann sér að læra söng í miðri alheimskreppunni sem þá gekk yfir heiminn og fátæktarbaslinu sem þá var á Íslandi. Þetta er svo lygilegt að það trúir þessu varla nokkur maður. En þar lærði faðir minn söng og var í Berlín um svipað leyti og Jón Leifs sem var nú frændi okkar. Jón fór reyndar allt aðrar leiðir og varð sprenglærður tónlistarmaður og kompónisti á heimsmælikvarða og rúmlega það. En faðir minn fór síðan út í kennslu á söng og flutti síðar til Svíþjóðar og kenndi þar um skeið. Síðan eftir að hann kemur aftur til Íslands þá var ekki um auðugan garða að gresja hvað kennslu á tónlist varðar en hann tók að sér einhverja nemendur og stjórnaði kórum. Við bjuggum á Akureyri fyrstu árin en um 1932- 33 þá flytjum við suður. Í Reykjavík hefja foreldrarnir kennslu og heimilið ómaði af söng og píanóleik,“ rifjaði Árni upp.

„Kölluðum þá Sölkuvölkukomma“

Árni byrjaði sem ungur drengur að spila með danshljómsveit Björns R. Einarssonar og þá alltaf á píanó. „Ætli það hafi ekki verið í kringum 1947 og ég þá 19 ára að ég byrjaði að spila með Birni R. Einarssyni og hljómsveit hans. Það var síðan árið 1951 sem mér og öðrum í hljómsveitinni bauðst að koma til Eyja og spila þar eina helgi. Við fórum til Eyja og það var svona óskaplega gaman að við fórum ekkert til baka og vorum í Eyjum í þrjú ár,“ sagði Árni og hélt áfram að rifja upp hvernig það bar að.

„Við spiluðum þá í Alþýðuhúsinu innan um kreppukommana,“ sagði Árni og hló við. „Það voru margir skrautlegir þarna eins og Ási í Bæ og Oddgeir Kristjánsson sem voru þarna upp á sitt besta. Við kölluðum þá alltaf Sölkuvölkukomma. Maður hélt að maður væri ógurlega mikið vinstri sinnaður en uppruninn leyndi sér ekki þar sem ég var kominn af kaupmönnum í allar áttir. Þannig að maður var aldrei heilsteyptur í því öllu saman,“ sagði Árni og hélt áfram að rifja upp árin í Eyjum. „Við spiluðum þarna með Hágæðasextettinum sem var mjög vinsæl hljómsveit þá og spiluðum við þá á hverju einasta kvöldi og það má segja að eftir að við Reykjarvíkurguttarnir komum til Eyja hafi þetta verið einn trylltur dans. Þú getur rétt ímyndað þér, fólkið í slorinu á daginn og síðan dansað á kvöldin fram á morgun. Hljómsveitina skipuðu Haraldur Guðmundsson, Axel Kristjánsson á bassa sem kom með mér til Eyja, Gísli Brynjólfsson og Gísli Bryngeirsson á klarínett og gítar, Siggi á Háeyri á trommur og ég á píanó. En við vorum þarna í góðu yfirlæti í þrjú ár og þetta var mjög svo skemmtilegt tímabil,“ sagði Árni og hafði gaman að því að rifja upp gamla tíma.

Þú hefur ekkert orðið að hálfgerðum Eyjamanni eftir dvölina? „Menn halda að ég sé Vestmanneyingur eftir þessa dvöl en það er auðvitað fjarstæða. Ég er ekta Norðlendingur og svo síðar Sunnlendingur. En hitt er svo annað mál að mér þykir ákaflega vænt um Eyjarnar og hef komið til Eyja reglulega hin síðari ár,“ sagði Árni en hann hefur haldið tryggð við Eyjarnar með því að koma á Daga lita og tóna sem haldnir eru um hvítasunnuna ár hvert. „Ég hef yfirleitt mætt á djasshátíðina og það er svo sannarlega krydd í tilveruna að koma til Eyja á sumrin og fá tækifæri til þess að spila. Það var upphaflega þannig að þegar Guðni Hermansen lést lenti ég fljótlega í því að koma til Eyja með grúbbur til að spila á hátíðinni. Ætli það hafi bara ekki vantað menn. Síðan hef ég yfirleitt komið og haft gaman af. Það eru auðvitað hæðir og lægðir hvað hátíðina varðar eins og gerist í lífinu en mér finnst hátíðin hafa þróast virkilega skemmtilega og tókst síðasta hátíð t.d. mjög vel. Þar voru ungir píanóleikarar sem komu mjög á óvart og þá sérstaklega Davíð Þór Jónsson sem var alveg stórkostlegur. Ég hélt að nú til dags spiluðu allir eins en hann fór hreinlega á kostum,“ sagði Árni og vonaðist til að koma til Eyja á næstu djasshátíð.

Úr lúðrasveitinni í sinfóníuna

Þú byrjar síðan að spila á annað hljóðfæri en píanóið í Eyjum ekki satt? „Jú það er rétt, ég tók upp básúnuna í Eyjum. Það atvikaðist nú þannig að einhverju sinni kom hljóðfæraleikari úr Reykjavík til að spila með okkur og fékk lánaða básúnu. Ætli það hafi ekki verið einhver skemmtidagskrá í gangi þá. En maðurinn gleymdi síðan básúnunni á hljómsveitarpallinum. Það var þannig að á þessum tíma bjuggum við í Alþýðuhúsinu, í hálfgerðum hundakofa að mig minnir á sviðinu. Þar sem ég er mikið fyrir að vakna snemma á morgnana þá rak ég augun í hljóðfærið á sviðinu. Nema hvað ég fer að blása eitthvað í hljóðfærið og var kominn á flug strax. Ætli það hafi liðið nema mánuður að ég var kominn í lúðrasveitina hjá Oddgeiri,“ sagði Árni og bætti við að ef áhugi væri til staðar þá væri hægt að gera ótrúlegustu hluti. „Þetta var nú bara sjálfsmenntun og tókst bara ágætlega því að ekki löngu síðar var ég kominn í Sinfóníuhljómsveit Íslands sem var þá nýstofnuð, ætli það hafi ekki verið um 1956. Ég starfaði síðan lengi með Sinfóníunni og hætti fyrir um 10 árum síðan. Það má segja að spilamennskan með Sinfóníunni hafi verið mitt aðalstarf í gegnum tíðina og sá ég fjölskyldunni farborða með því starfi,“ sagði Árni.

Þegar Árni var spurður að því hvernig það hafi verið að vinna með Oddgeiri Kristjánssyni í Lúðrasveit Vestmannaeyja þá sagði Árni að þar hafi farið mikill leiðtogi. „Það var alveg stórkostlegt að vinna með Oddgeiri og greinilegt að þar fór mikill leiðtogi og alvörumaður. Oddgeir var ákaflega merkilegur maður og það vissu allir hver hann var í Eyjum. Það var skemmtilegt að fylgjast með því þegar hann var að kenna strákunum í Lúðrasveitinni að blása í trompet þá sagði hann þeim að skyrpa í hljóðfærið, að skyrpa skítnum út sagði hann. Í dag held ég að svona aðferðir séu ekki vænlegar til árangurs. En Oddgeir var afburða kompónisti og allir þekkja lögin hans. Vestmannaeyingar mega vera stoltir af lögunum hans og ég held að það séu ekki mörg bæjarfélög sem eiga svona perlur og hvert öðru fegurra,“ sagði Árni og dró ekki dul á hversu falleg lögin hans Oddgeirs væru.

Ráfuðu um bæinn eins og auðnuleysingjar

Árna eru minnistæðir margir menn úr bæjarlífinu í Eyjum og þá sérstaklega tveir sem í dag eru fallnir frá. En það eru þeir Axel Vigfússon, oft kallaður Púlli, og Jóhann Friðfinnsson. „Ég man sérstaklega eftir einum manni sem setti sterkan svip á bæjarlífið í Eyjum á þessum árum og það var hann Púlli. Ég sá Púlla í Eyjum rétt áður en hann dó þegar ég var í heimsókn á elliheimilinu. Ég hélt að hann væri löngu látinn þar sem hann var svo fatlaður maður en þá sat hann þarna í andyrinu með bílinn sinn. Þetta er eitt það lygilegasta sem hefur komið fyrir mig. Síðan voru margir frægir menn þarna í Eyjum eins og Binni í Gröf og fleiri. Þá má ekki gleyma Jóa á Hólnum, en ég kynntist honum ekki fyrr en ég fór að mæta á djasshátíðina í Eyjum hin síðari ár. Þar fór ákaflega góður og skemmtilegur maður sem vildi öllum vel. Ég átti smá samstarf við Jóa síðastliðið sumar þegar ég teiknaði mynd fyrir hann í viðtal sem tekið var við hann og birtist í tímaritinu Ský. En ég minnist Jóa á Hólnum með mikilli gleði,“ sagði Árni.

Þó svo að Árni og félagar hafi verið í Eyjum fyrst og fremst til að spila tónlist brugðu þeir sér eitt sinn niður á bryggju og buðu fram krafta sína. „Það er gaman að segja frá því að þegar við vorum í Eyjum þá ráfuðum við hljóðfæraleikararnir um bæinn eins og auðnuleysingjar á meðan allt var bullandi í vinnu við fiskinn. Það var einhverju sinni sem við skömmuðumst okkar svo mikið við að vera svona eirðarlausir að við réðum okkur í vinnu við höfnina. Úthaldið hjá okkur var nú ekki mikið en við unnum þarna í smá tíma í slorinu við að gogga fisk fram og aftur um svæðið. Þetta var náttúrulega bölvað moð en við gerðum þetta svona til að sýnast,“ sagði Árni.

Árni sagði að böllin og spilamennskan hafi verið ólíkt því sem er í dag. „Þetta voru löng og erfið böll og hálfgerð skröll eiginlega því fylleríið var talsvert. En þetta var þó allt í góðu meira og minna þrátt fyrir smá kjaftshögg og pústra en ekki eins og í dag þegar ráðist er á liggjandi menn og sparkað í andlitið á þeim. Það er hræðilegt að sjá þróunina í þessum efnum í dag,“ sagði Árni og var ekki sáttur við gang mála í þessum efnum.

Úr Alþýðuhúsinu yfir í Samkomuhúsið

Á þessum árum var mikil samkeppni á milli Samkomuhúss Vestmannaeyja og Alþýðuhússins hvað dansleiki og samkomur varðar. Árna er þessi samkeppni mjög minnisstæð. „Það var oft og tíðum mikil og hörð samkeppni á þessum árum á milli Samkomuhússins og Alþýðuhússins. Samkomuhúsið fór að flytja inn hljómsveitir og skemmtikrafta úr Reykjavík sem stoppuðu stutt við og spiluðu kannski í mánuð í senn á meðan Alþýðuhúsið hafði sína eigin hljómsveit. Það voru margar vinsælar hljómsveitir sem spiluðu í Samkomuhúsinu eins og hljómsveitir Svavars Gests. og Björns R. Einarssonar. Síðan gerist það skrítna að þessi þróun snerist við. Þá kom Guðmundur Norðdahl, erki stalínisti og kreppukommi, til Eyja og stofnaði hljómsveit í Samkomuhúsinu og heldur þú ekki að ég lendi þar eins og einhver mella,“ sagði Árni og hló við. „Ég hafði nú ekkert voðalega mikla trú á því enda var þá þessi barátta að lognast út af meira og minna og blómatíminn runninn sitt skeið á enda. Í hljómsveit Guðmundar Norðdahl voru Höskuldur Ólafsson á trompet, en hann spilaði eins og Harry James á trompetinn og leit út eins og hann þegar hann var að spila. Ég man eftir því að það komu oft útlendingar af skipum sem áttu viðdvöl í Eyjum á dansleiki hjá okkur og héldu að Höskuldur væri Harry James. En síðan voru Sissi eða Sigurður Þórarinsson á trommur, Höskuldur Stefánsson á harmonikku, ég á píanó og Guðmundur Norðdahl á klarínett,“ sagði Árni og þegar blaðamaður spurði hann hvernig tónlist þeir hefðu spilað sagði hann að þeir hefðu spilað mikið af djassi því gömlu dansarnir væru hundleiðinlegir.

Afkastamikill myndlistarmaður

Þó svo að Árni Elfar sé hvað þekktastur fyrir að vera tónlistarmaður þá hefur hann aldrei skilið blýantinn og pensilinn við sig og liggja orðið eftir hann ófáar myndir í gegnum tíðina. „Það má segja að ég sé orðinn þekktari sem myndlistarmaður en tónlistarmaður. Ég hef alltaf verið að mála og teikna samhliða tónlistinni og haft gaman af og áhuginn óþrjótandi. Það var ekki fyrr en um 1970 þegar ég hætti að mestu í danstónlistinni að ég fer að teikna meira. Eftir mig liggja margar myndir og teikningar og það má segja að ég fáist við allt, frá mannamyndum til djassmynda sem eru uppáhaldið mitt, en djassinn gefur svo mikla möguleika í myndlistinni. Þá hef ég teiknað mikið af skopmyndum og einhverju sinni var mér ráðlagt að láta af þeirri iðju til að eyðileggja ekki fyrir ferlinum. Ég hlustaði nú ekki mikið á þær raddir. Hvað skopmyndir varðar þá eigið þið Eyjamenn Sigmund Jóhannsson sem er einn mesti listamaður þjóðarinnar. Mér þótti ákaflega vænt um það þegar hann benti á mig einu sinni hvað skopmyndateikningu varðar,“ sagði Árni.

Vinnustofa Árna ber merki þess að þar fer afkastamikill myndlistarmaður því bókstaflega allir veggir, borð og skúffur voru stútfullar af myndum eftir hann. Þrátt fyrir afköstin hefur Árni ekki haldið margar myndlistarsýningar í gegnum tíðina en þeim mun meira hefur hann málað og teiknað eftir pöntunum fyrir fólk og hvatti hann fólk til að kíkja við ætti það leið um Garðabæinn.

Það var síðan við hæfi að þegar viðtalinu lauk tóku blaðamaður og viðmælandi lagið saman. En Árni sagðist ekki veita viðtal nema að blaðamaður tæki trompetið með sér og að þeir tækju lagið saman. Svo varð raunin og ein perlan hans Oddgeirs, Ég veit þú kemur, varð fyrir valinu og hugsuðu báðir heim til Eyja á meðan á spilamennsku stóð.

- Eftir Skapta Örn Ólafsson.