Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Frá Sigurði Breiðfjörð í Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Frá Sigurði Breiðfjörð í Eyjum,
vera hans 1824-1828, formannavísur o.fl.


Sigurður Breiðfjörð var tvímælalaust besta rímnaskáld 19. aldar. Árin 1824-28 dvaldi hann í Vestmannaeyjum og var þá beykir við Garðsverzlunina hjá Petreusi kaupmanni.
Meðan hann var í Eyjum kvæntist hann (1826) Sigríði Nikulásdóttur. Var hún ættuð úr Njarðvíkum og var 12 árum eldri en Sigurður. Bjuggu þau í Breiðfjörðshúsi, þangað til Sigurður flutti burt úr Eyjum. Varð konan eftir, og segir Gísli Konnráðsso fróði, að hann hafi þá selt hana búðarmanni, sem Otti Jónsson hét, fyrir danskan hund, og má hver trúa sem vill.
Ekki mun Sigurði hafa líkað Eyjaveran. Bendir þessi vísa til þess:

Þegar ég fæ sól að sjá,
svo ég þykist skilja,
hún skín þennan hólma á,
af hlýðni, en ekki vilja.

Sigurður kvað formannavísur um þá, sem voru formenn í Eyjum vertíðina 1827, og einnig þá formenn af meginlandinu, er þá stunduðu sjó úr Eyjum. Fara hér á eftir vísurnar um Eyjaformennina. Af 7. vísunni virðist mega ráða það, að Sigurður hafi þessa vertíð stundað sjó með formanni, sem hét Guðmundur Eyjólfsson. Um formennina er mér ókunnugt, nema Jón Pálsson, sem var bóndi í Kirkjubæ. Um Sigurð Breiðfjörð hefir gengið í Vestmannaeyjum eftirfarandi þjóðsaga. Er hún tekin eftir frásögn Guðríðar Bjarnadóttur í Brautarholti í Vestmannaeyjum.
Þegar Ragnheiður Gísladóttir, sem síðar varð kona Bjarna Ólafssonar bónda í Svaðkoti, kom fyrst til Eyja um tvítugs aldur, var hún vinnukona hjá Sigurði Torfasyni á Búastöðum.
Hjá Páli Jenssyni, sem þá bjó í austurbænum, var niðursetningur sýslumannadóttir ein, sem Arnfríður hét. Var Arnfríður þá orðin gömul og afskræmd. Hún var haldin geðbilun, sem hún fékk með afskaplegum köstum, en alllangt var á milli þeirra. Þegar Arnfríður var með fullu ráði, var hún bráðskemmtileg. Hafði hún fallega söngrödd og var gædd góðum gáfum. Hún hafði fagurt glóbjart hár, en reytti það af sér, er geðveikisköstin gripu hana.
Þeim Ragnheiði var vel til vina og sagði hún henni, hvernig viljað hafði til að hún varð geðveik.
Þegar Arnfríður var um tvítugt, var hún enn á Vesturhúsum hjá móður sinni, sem þá var fyrir löngu orðin ekkja. Var Arnfríður þá trúlofuð trésmið nokkrum, sem um þessar mundir var í Kaupmannahöfn til að fullnuma sig í trésmíði. Sýndi Arnfríður henni bréfin frá honum, sem hún átti enn.
Um þetta leyti var Sigurður Breiðfjörð skáld í Vestmannaeyjum, sem beykir þar. Vildi hann ganga að eiga móður Arnfríðar og var mjög umhugað, að sá ráðahagur tækist. Arnfríður setti sig á móti því að móðir hennar giftist Sigurði og varð það til þess, að ráð fór út um þúfur.
Reiddist Sigurður Arnfríði heiftarlega og hótaði henni því, að hann skyldi hefna sín grimmilega fyrir aðgerðir hennar.
Nokkru síðar var Arnfríður að reiða fisk úr fjöru upp í fiskigarð. Á leiðnni féll hún niður, og fannst þar skömmu síðar meðvitundarlaus. Eftir þetta var hún í köstum sturluð á geði. Sagðist henni svo frá, að sér hefði fundist einhver þungi koma yfir sig, áður en hún féll meðvitundarlaus til jarðar, og taldi hún, að það hefði verið sending frá Sigurði Breiðfjörð í hefndarskyni.

Þetta eru formannavísur Sigurðar:
1. Fer ég að reyna svörin sein,
sem ég meina betra,
hvort ég eina óðar-grein
orka sveinum letra.
2. Tals við skrá, ef takast má,
tel ég þá órýra,
formenn þá, sem Eyjum á
eikum sjávar stýra.
3. Tel ég óringan teinæring,
trúi slyngar sveitir,
flóðs á bingum þykir þing
„Þurfalingur‟ heitir.
4. Þennan kundur Korts á sund
knör Guðmundur situr
nú um stundir marar mund,
mestan fundið getur.
5. Nefni ég Einar Sigurðs svein,
um síldar hreina binginn,
dyggur reynir, dvína mein,
„Daníel‟ teinæringinn.
6. Fær með heiður höppin greið,
hringameiður kjörinn,
þó að freyði lá og “Leið“
lætur skeiða knörinn.
7. Einn Guðmundur út á sund
Eyjólfs kundur dregur,
Mér hann blundinn morgunstund
meinar undarlegur.
8. Odd má greina afreks svein,
þó æðið kveini boða,
lætur einatt löngu-hlein
„Lukkureyni‟ troða.
9. Geirmund fann ég fullhraustan
með flokkinn manna skíra,
„ey-Vestmanna‟ heilli hann
hugaður kann að stýra.
10. Pálsson Jón um fiska frón
forðast tjón að vonum.
Gamalt þjónar græðisljón,
„Gæfa“, á sjónum honum.
11. Einnig tala um Eyjólf skal
á ýsu svala heiði,
sinn með valinn súða hval
sækir halur veiði.
12. Jón hefir þorað vel í vor
á veiði skora mætur,
Gísla börinn flæðar for
„Farsæl‟ spora lætur.
13. Þar við má ég talda tjá,
tama að sjá og snúa,
formenn þá, sem okkar á
eyjum fá að búa.
14. Hæðafaðir hindri hvað,
sem hræðir glaða sveina,
gæða hlaði gnægtum að,
græði skaða meina.
15. Herra kær oss hlíf og nær,
hjálp svo væra eigum,
gnægtir þær oss gef, sem vær
gagns til færa megum.
16. Liggi þrá og ánauð á
aumum sjávarbúum.
Vertu hjá og þyrm oss þá,
því vér á þig trúum.

Samkvæmt þessu hafa 8 Eyjaskip gengið vertíðina 1827, en landskipin voru 9.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit