Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Einsdæma Súlnaskersferð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Einsdæma Súlnaskersferð 27. – 28. júlí 1942


Í Súlnaskeri.
Íbúarnir.

Þeir fóru í Súlnasker Hjálmar Jónsson frá Dölum og Svavar Þórarinsson frá Suðurgarði 17. júlí 1942 kl. 20 til lundaveiða. Upp á Súlnasker voru þeir komnir með allt sitt dót kl. 22.45, enda þótt þeir yrðu að draga það upp 60 metra bjargvegg.
Veiðin gekk þeim sæmilega, en laugardaginn 25. júlí fóru þeir heim með trillubát. Þann 27. júlí fóru þeir enn út í ,,Skerið“ á trillubátnum ,,Gæfa“. Á bátnum voru og Álseyingar að fara út í Álsey til lundaveiða. Með þeim Súlnaskersmönnum voru tvær stúlkur, þær Ragnheiður Jónsdóttir í Dal og stúlka, sem kölluð var ,,Lolla“ og var hjúkrunarnemi hér. Þá var og með Brynjólfur Jónatansson í Breiðholti. Þessi þrjú síðarnefndu ætluðu upp á Súlnasker ásamt Hjálmari og Svavari, ef þeim litist á uppferðina, er að henni væri komið.
Kl. 00.20 þann 28. júlí voru þau komin suður að ,,Súlnakseri“. Var þegar lagt af stað upp án þess að hika hið minnsta. Á ,,Bænabring“ var stoppað, samkvæmt gamalli venju, og lesin þar bæn, en síðan haldið áfram upp. Ekki þorðu þeir annað enn binda yfir um stúlkurnar til öryggis til að missa þær ekki úr höndum sér. Brynjólf þurfti ekki að binda, því að hann var vanur ferðum í fjöllum. Áfram var haldið og var ekki frítt við, að þeir færu svona heldur hjá sér og væru feimnir að vera með ungar og fallegar stúlkur í fanginu í ýmsum stellingum þarna utan í bjarginu og það svona langan tíma. En um það var annars ekki tími til að hugsa. Allt hefir sín tímatakmörk og svo var með þetta ferðalag. ,,Áfram, áfram“, sögðu stúlkurnar. Það heyrðust engar upphrópanir eða hræðsluóp í þeim og er þetta þó ægilegt ferðalag fyrir alóvant kvenfólk. En ferðin gekk prýðilega og kl. 01.30 var komið upp á brún. Hafði þá ferðin upp varað í 50 mínútur, af ,,Bænabring“, og er það mjög fljótt farið af óvönu fólki. Nú var haldið ,,til bóls“, þ.e. til tjaldsins, kveikt á prímusnum í mesta flýti og kaffi hitað. Er kaffi hreinasti lífselixir fyrir svona ferðafólk. Ekkert var þó til ,,út í það“, því að ekki var töðugjaldaskammturinn kominn á mót þá. Var nú kaffið drukkið, en síðan farið að skoða eyjuna í bjartri sumarnóttinni og ónáða súluna, sem átti sér ekki neinna gesta von um þetta leyti.
Það fór nú að verða heldur en ekki glatt á hjalla, er stúlkurnar fóru að steypa stömpum og hentust áfram á allan mögulegan hátt, því að þarna er mjög ógreitt yfirferðar. Heyrðust þá þessi skerandi hljóð veika kynsins, en þau leita svo undur fljótt til hjarta okkar karlmannanna, hvort sem um sársauka hljóð eða gleðihlátur er að ræða.
Súlan var heimsótt í híbýli hennar, en ekki var hún gestrisin frekar venju, þó að hér væri alveg um einsdæma heimsókn að ræða. Hún gargaði vonskulega og reyndi meir að segja að bíta gestina. Allt gekk þetta þó slysalaust til, en ekki aldeilis hljóðalaust. Eftir að hafa dvalið um stund í þessum heimkynnum súlunnar, var farið í heimsókn á prestssetrið, en svo illa vildi til að ,,Skerpresturinn“ var ekki heima né neinn annar af fjölskyldunni og gátum við okkur til, að prestur mundi hafa skroppið nokkurra daga orlofsferð í ,,Þrídranga“. Sögðum við stúlkunum þjóðsögur um skerprestinn og fannst þeim, eftir þá frásögn, tilgáta okkar mjög líkleg. Heima hjá klerki, gátum við því lítið sýnt stúlkunum nema peningaeign hans, sem þeim þótti bæði mikill og fagur sjóður.
Eftir þessar heimsóknir var aftur haldið í tjaldið. Var þar drukkið gott kaffi, snæddur hálf hrár, brimsaltur lundi, hlustað á útvarp, sungið og margt fleira til gamans gert um stund. Þá var farið að tygja sig til heimferðar. Fórum við vestur í svonefnda ,,Þró“, þar sem niðurferðin suður af eynni byrjar. Vitanlega fórum við með bönd, því að þarna er ókleift og verður í böndum niður að fara.
Svavar fór fyrstur niður og átti hann að annast þær allt á bát niður, en ég tók að mér hið vandasama verk og fáheyrða, að binda þær í bandið og gefa þeim niður. Já, ég segi hiklaust hið vandasama verk að binda þær í bandið, því að aldrei hafði ég bundið kvenmann í sigaband fyrri, og kveið ég satt að segja fyrir þeim handtökum.
Ég byrjaði á að binda ,,Lollu“, því að hún vildi ólm fara á undan niður og kveið engu, hvorki niðurferðinni né handatiltektum mínum.
,,Drottinn minn dýri“, - það fór einhver sælukenndur titringur um mig allan, er ég fór að þukla og hnýta, laga og reyra böndin að þessu mjúka holdi. Upplit mitt var víst ekki djarfmannlegt, og fann ég vel, að ég var eins og feiminn og uppburðarlítill piltur, blóðrjóður út að eyrum og bullsveittur af taugaæsingi.
Nú. En þetta fór þó allt vel, og eftir nákvæma eftirsýn, hvort allt væri eins og vera bæri með bindinguna, lét ég hana frá mér fara, niðurfyrir brúnina, settist til undirsetu og gaf henni niður jafnt og rólega til Svavars, sem tók hana í sína arma eftir það. Niðurferðin tókst prýðilega.
Svo kom röðin að Ragnheiði, og sagan endurtók sig, a.m.k. hvað mínum tilfinningum og handatiltektum viðkom. Þessi niðurferð tókst líka ágætlega enda voru stúlkurnar báðar óhræddar, ófeimnar og djarfar, sem vitanlega gerði þetta ferðalag mögulegt.
Síðast fór svo Brynjólfur Jónatansson, og tók ég mér ekki nærri að svínbinda hann og fíra niður allrösklega og kanske skrykkjótt til Svavars.
Svavari gekk vel að koma stúlkunum á bát með aðstoð Binna, en hvort þeir hafa verið þjáðir af slíkum tilfinningaumbrotum gagnvart stúlkunum sem ég var, er mér ókunnugt um, þótt hinsvegar megi telja það líklegt.
Þegar allir voru komnir heilu og höldnu niður í bátinn var kl. 03.15 og má það kalla góðan gang eftir atvikum.
Ferðalag þetta er víst ábyggilega einstakt að því leyti, að upp á Súlnasker hefir aldrei fyrri kvenmaður komið svo vitað sé, og mjög vafasamt að nokkur kvenmaður hafi sigið í björg hér í Eyjum fyrr, a.m.k. fara ekki sögur af slíku. Væri þá helst að hugsa sér að Þorgerður Gísladóttir í Skel (móðir Högna í Vatnsdal hér Sigurðssonar og kona Sigurðar Sigurfinnssonar, hafi sigið í björg, en hún var orðlögð fyrir ferðir sínar í fjöll, við rótartínslu o.fl.), og Margrét systir hennar, er fór til USA.

Ath. Síðan hef ég frétt, að Fanney Ármannsdóttir Jónssonar í Þorlaugargerði, kona Sigurðar Jóelssonar hafi 2 árum áður farið upp í Súlnasker, ásamt manni sínum. Mun Fanney því vera fyrsti kvenmaður, sem leggur leið sína upp í Súlnasker.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit