Ólafur Marel Ólafsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ólafur Marel Ólafsson.

Ólafur Marel Ólafsson frá Bjargi, íþróttakennari, útgerðarmaður, frumkvöðull fæddist 30. apríl 1925 á Bjargi og lést 4. janúar 2009 á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar.
Foreldrar hans voru Ólafur Oddur Guðjónsson frá Breiðavík í Loðmundarfirði, sjómaður, bátsformaður, f. 28. júní 1897 á Arnarstöðum í Loðmundarfirði, síðar á Baugsvegi 1 á Seyðisfirði, en að lokum á Hrafnistu í Hafnarfirði, d. 10. júlí 1978, og kona hans Vigdís Ólafsdóttir frá Bjargi við Miðstræti, húsfreyja, f. þar 19. janúar 1906, síðar á Baugsvegi 1 á Seyðisfirði, en síðast á Hrafnistu í Hafnarfirði, d. 10. júlí 1990.

Börn Vigdísar og Ólafs Odds:
1. Ólafur Marel Ólafsson íþróttakennari, útgerðarmaður, frumkvöðull, f. 30. apríl 1925 á Bjargi, d. 4. janúar 2009.
2. Jórunn Þórdís Ólafsdóttir húsfreyja, starfsmaður Símans, f. 24. október 1935, d. 26. október 1973. Maður hennar var Sveinn Finnbogason
3. Laufey Alda Ólafsdóttir húsfreyja, fiskvinnslukona, f. 10. nóvember 1938. Maður hennar er Stefán Þorvarðarson.
4. Magnús Ver Ólafsson sjómaður, f. 28. október 1941, d. 27. desember 1962, ókv.

Ólafur var með móður sinni á Bjargi 1927 og 1930 og fluttist með henni á Seyðisfjörð um 1932.
Hann var með foreldrum sínum á Hánefsstaðaeyrum í æsku, lauk gagnfræðaprófi frá Alþýðuskólanum á Eiðum 1945, Íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni 1946.
Ólafur var sundkennari á Fáskrúðsfirði 1946, var fimleikakennari á Eiðum 1946-1947, í barnaskólanum á Seyðisfirði frá 1947 – 1958, forstöðumaður sundhallarinnar þar 1948-1958.
Ólafur sat í bæjarstjórn á Seyðisfirði í átta ár.
Hann rak útgerð og fiskvinnslu á Seyðisfirði. Í félagi við Jón Kristinn Pálsson frá Þingholti ráku þeir skipin Gullberg NS 11 og síðar einnig Gullver NS 12.
Einnig var Ólafur frumkvöðull að verkun saltfiskflaka og stofnaði beitningaskóla á Seyðisfirði.
Hann var heiðursborgari Seyðisfjarðar.
Þau Hlín giftu sig 1949, eignuðust þrjú börn auk Axels Haraldar barns Hlínar, sem varð kjörbarn Ólafs.
Elísabet Hlín lést 2008 og Ólafur 2009.

I. Kona Ólafs Marels, (29. október 1949), var Elísabet Hlín Axelsdóttir Nielsen húsfreyja frá Seyðisfirði, f. 7. desember 1924, d. 10. október 2008. Foreldrar hennar voru Emil Axel Nielsen, af dönskum ættum, f. 26. nóvember 1897, d. 5. mars 1936, og kona hans Kristín Theodóra Víglundsdóttir Nielsen húsfreyja, iðnrekandi, f. 12. október 1901 á Sléttu í Mjóafirði, d. 19. apríl 1987.
Börn þeirra:
1. Axel Haraldur Ólafsson, kjörsonur Ólafs, sonur Hlínar og Lee Waker; sjómaður, f. 20. ágúst 1943, d. 21. september 1987. Kona hans var Elísabet Gunnlaugsdóttir.
2. Theodóra Ólafsdóttir húsfreyja, f. 17. apríl 1951. Sambýlismaður hennar er Adolf Guðmundsson.
3. María Vigdís Ólafsdóttir húsfreyja, f. 23. nóvember 1955. Maður hennar var Ólafur Már Sigurðsson. Barnsfaðir hennar er Hjörtur Þór Unnarsson.
4. Hrönn Ólafsdóttir húsfreyja, f. 22. desember 1959. Sambýlismaður hennar er Guðjón Harðarson.



Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Magnús Haraldsson.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 14. janúar 2009. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.